Til ykkar á þriðja æviskeiðinu

Tilgangurinn með þessu fyrsta fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna er að kynna fyrir ykkur, sem eruð á 3. æviskeiðinu, hvaða tækifæri það hefur að geyma. Næstu fréttabréf munu flytja fréttir af því nýjasta sem er að ske í húsinu. Fréttabréfið mun koma út einu sinni í mánuði og verður sent á alla þá sem eru á netfangalista Vöruhússins. Auk vefgáttarinnar mun https://www.facebook.com/ voruhustaekifaeranna/ síða Vöruhússins koma fréttum og viðburðum á framfæri.

Vöruhús tækifæranna er vefgátt, https://old.voruhus-taekifaeranna.is/ þar sem safnað er saman á einn stað upplýsingum um tækifæri sem má nýta til þess að til þess að breyta til og feta nýjar slóðir, öðlast meiri hæfni og færni eða einfaldlega meiri lífsfyllingu. Rekkar vöruhússins bera nöfnin Fjárhagur, Lífsfylling, Nýr starfsferill, Stofna fyrirtæki og Réttindi. Í hverjum rekka eru svo hillur  þar sem tækifærin hvíla og bíða þess að koma að gagni.

Vöruhúsið á erindi við alla sem eru komnir yfir fimmtugt og vilja nýta og njóta áranna og áratuganna framundan til þess að eiga auðugra og fyllra líf. Þetta er þó ekki einsleitur hópur heldur felur í sér marga aldurshópa. Hópurinn 50 til 70 ára er ef till vill enn í starfi og hefur krafta og þor til þess að láta gamla drauma rætast um annað starf eða t.d. stofna fyrirtæki. Hér koma rekkarnir Nýr starfsferill og Stofna fyrirtæki að góðu gagni. Ef meiri færni þarf til þess að láta drauma rætast er vert að skoða rekkann Færni.

Svo er það aldurshópurinn sem er hættur formlegri vinnu og kominn á eftirlaun. Mörg ykkar eru ef til vill enn að vinna, eruð virk félagslega og í námi en viljið samt breyta til og langar að kynnast fleira fólki. Hér er tilvalið að skoða rekkann Lífsfylling þar sem eru gefin góð ráð um margvísleg samskipti og jafnvel finna nýjan félaga á stefnumótarsíðu. Rekkarnir Fjárhagur og Réttindi eiga erindi við báða aldurshópana.

Við viljum hér leggja áherslu á að það er mikilvægt að undirbúa þriðja æviskeiðið. Í bókinni Til móts við þróttmikið þriðja æviskeið á vefsíðunni https://www.ball-project.eu/ er að finna leiðbeiningar um hvernig má gera það.

Eins og þið sjáið hér að framan höfum við reynt að geta okkur til hvað þið þurfið til að takast á við árin eftir fimmtugt. En við erum ekki alvitur og viljum því leita í smiðju ykkar og biðjum um að þið, eftir að hafa farið skoðað vefgátt Vöruhússin, að segja okkur hvaða tækifæri vantar.

Með bestu kveðju,

Hjördís Hendriksdóttir
formaður stjórnar Vöruhúss tækifæranna
netfang: vt@voruhus-taekifaeranna.is

Skip to content