Menningararfurinn og notkun snjallsíma

Hefur þú áhuga á að kynnast tilteknum menningararfi nánar? Ef svo er þá er tilvalið að skrá upplýsingar um hann og leiðina að honum stafrænt í snjallsímann þinn í appið Wikiloc. Það er einmitt það sem við erum að gera í HeiM verkefninu, sem U3A Reykjavík er aðili að ásamt samstarfsaðilum á Spáni, í Póllandi og í Króatíu.   Leiðirnar eiga að vera þægilegar og henta  þriðja æviskeiðinu, 50+. Hugmyndirnar eru óendanlega margar og sem dæmi þá eru nokkrir félagar í U3A Reykjavík að hanna og kortleggja nokkrar slíkar leiðir þessa dagana. Nefna má þar  sólstöðugöngu í Viðey þar sem skráðar eru upplýsingar um  hús frá 14. og fram á 19. öld og útilistaverkaganga um miðborg Reykjavíkur þar sem flestir listamannanna eru menntaðir í listaháskólum í Evrópu. Meðal áhugaverðra leiða gæti verið að ganga á milli staða og húsa þar sem forfeðurnir hafa búið og skrá sögu þeirra til þess að hún gleymist ekki. Lesa meira um HeiM og leiðir að menningararfinum.

Í HeiM verkefninu, sem U3A Reykjavík er aðili að ásamt Spáni, Póllandi og Króatíu, felast tækifæri fyrir þriðja æviskeiðið, 50+, til þess að læra að nota snjallsímann  til að hanna og búa til leiðir að menningararfi að eigin vali. Verkefnið snýst einmitt um að skilgreina menningararfinn sem þér finnst skipta máli og hvernig má kynnast honum. HeiM stendur fyrir Heritage in Motion eða Leiðir að menningararfinum  og eiga leiðirnar að taka part af degi og vera aðgengilegar þessum markhópi, 50+.

Að undanförnu hafa nokkrir U3A félagar einmitt verið að velja sér menningararf af áhuga, ákveða leiðina að honum og áningarstaði á leiðinni, lesa sér til og hafa síðan gengið leiðina með símann í hönd og appið WIKILOC í símanum. Þannig verður leiðin til hnitsett í appinu og aðrar upplýsingar um hana. Síðan er haldið áfram í tölvunni við að fullvinna leiðina,  setja inn texta og myndir. Leiðirnar sem eru í þróun hér heima eru:

  • Sólstöðuganga í Viðey þar sem áningarstaðir eru hús frá 14. fram á 19. öld.
  • Ganga um þjóðleið í Elliðaárdal sem var áður notuð jafnt af almenningi (almúganum) sem erlendum þjóðhöfðingjum og könnuðum.
  • Ganga á milli útilistaverka í miðbær Reykjavíkur þar sem flest verkin eru gerð af listamönnum menntuðum í hinum ýmsu listaskólum Evrópu.
  • Ganga um Laugarnes og Kirkjusand þar sem fræðst er um byggð í Laugarnesi, sem nær aftur til landnáms, og metnaðarfull áform um uppbyggingu á Kirkjusandi.
  • Ganga milli minningarmarka, járnkrossa, í Hólavallagarði.

Annars konar leiðir má hugsa sér eins og að ganga á milli staða og húsa þar sem forfeðurnir hafa búið og saga þeirra skráð til þess að hún gleymist ekki, og kynslóðirnar hafa einnig gengið.

Þessar fimm leiðir hér í Reykjavík, auk fimm annarra leiða í hverri borganna Zagreb, Varsjá og Alicante sem kortlagðar eru af samstarfsaðilum þessa Evrópuverkefnis, verða birtar í upphafi sumars fyrir alla til skoðunar og gönguferða að menningararfinum. Tilgangurinn með HeiM verkefninu er ekki aðeins að læra að hanna og búa til leiðir með því að nota snjallsímann heldur líka að læra um sinn eigin menningararf og geta tengt hann við Evrópska menningararfinn og ekki síst til þess að hreyfa sig.

Með því að smella hér þá opnast WIKILOC appið  með öllum upplýsingum sem þú þarft. Við hvetjum þig svo til að fylgjast með vefsíðu og fréttabréfum HeiM verkefnisins

Velkomin í hóp forvitinna á þriðja æviskeiðinu.

Skip to content