Fjölbreyttar innanlandsferðir í sumar á vegum FEB

Fjölbreyttar innanlandsferðirí sumar á vegum FEB

Sem fyrr býður Félag eldri borgara upp á fjölbreyttar ferðir í sumar og í ár verður farið bæði á nýjar og hefðbundnar slóðir.  Ferðirnar eru öllum opnar. Næstu ferðir á áætlun eru:

Á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi (14.-15.júní)

Borgarvirki í Húnaþingi

Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Laugarbakka. Ekið sem leið liggur norður yfir heiðar og komið við í Selasetrinu á Hvammstanga. Síðan haldið Vatnsneshringinn með viðkomu á ýmsum stöðum s.s. Illugastöðum, við Hvítserk og Borgarvirki. Haldið að Hótel Laugarbakka, þar sem hópurinn gistir. Síðari daginn kemur Magnús Ólafsson fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum og sagnaþulur og fjallar um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks, og fer með hópnum að Þrístöpum og um Vatnsdal. Þá verður haldið í kirkjuna á Þingeyrum og síðan að Kolugljúfrum í Víðidal, áður en farið verður aftur suður.
Innifalið í verði er gisting, kvöldverður og morgunverður ásamt hádegishressingu báða dagana.

Leiðsögumaður: Kári Jónasson

Verð: 38.500 á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi. 4.000 krónur bætast við ef gist er í einbýli og/eða farþegi er utanfélagsmaður.

Njáluslóðir Suðurland (24. júní)

Laugardælakirkja

Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir hópinn á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður í Laugardælakirkju austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Keldum og Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli áður en haldið verður til Reykjavíkur.

Fararstjóri: Guðni Ágústsson

Verð: 15.500 (17.500 kr. fyrir utanfélagsmenn)

Vestmannaeyjar( 28 júní)

Vestmannaeyjar

Dagsferð til Vestmannaeyja. Ekið sem leið liggur austur fyrir Fjall og í Landeyjahöfn,þar sem Herjólfur ferjar hópinn yfir til Eyja. Þegar komið er til Eyja er ekið inn í Herjólfsdal. Hópurinn snæðir hádegisverð á Tanganum og er maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“ og Skansinn,áður farið er í Eldheima og þar sem kynntar verða afleiðingar Heimaeyjargossins í janúar 1973.
Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og kemur til Reykjavíkur um áttaleitið ef allar áætlanir standast.

Leiðsögumenn: Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.

Verð: 18.000 (20.000 fyrir utanfélagsmenn)

Demantshringurinn (6.-7. júlí)

Dettifoss

Flogið klukkan 11 til Akureyrar og þaðan ekið til Húsavíkur. Súpa og brauð og skoðunarferð um staðinn. Þá er haldið fyrir Tjörnes í Ásbyrgi og gengið inn að Botnstjörn. Haldið um nýja veginn að Hljóðaklettum og þaðan suður að Dettifossi. Eftir skoðunarferð að fossinum er ekið að Hótel Seli í Mývatnssveit þar sem gist er um nóttina. Daginn eftir eru nokkrar af perlum sveitarinnar skoðaðar og eftir hádegissnarl er haldið að Goðafossi og síðan til Akureyrar. Ekið um bæinn áður en haldið er aftur til Reykjavíkur með flugi klukkan 19:30.

Fararstjóri: Kári Jónasson

Verð: 70.000 á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi. 5.000 krónur bætast við ef gist er í einbýli og/eða farþegi er utanfélagsmaður.

Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og um Vík (17. ágúst)

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal

Enn á ný efnir FEB til dagsferðar um Fjallabaksleið nyrðri, og eins og áður er fyrsti viðkomustaður Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal. Þaðan verður ekið rakleiðis inn í Landmannalaugar, þar sem gestir taka upp nesti sitt og skoða sig um. Þá verður haldið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjól. Síðan verður ekið niður Skaftártungu og um Vík . Kvöldmatur, sem er innifalinn í verði, bíður ferðalanga áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Þetta er nokkuð löng ferð og ekið um hálendisvegi yfir ár og læki.

Leiðsögumaður: Kári Jónasson

Verð: Kemur síðar

Ferð um Kjöl í Fjörðu, Flateyjardal og Tröllaskaga (8.-11. ágúst)

Við leggjum enn einu sinni land undir fót og hyggjum á viðburðaríka ferð í ágústbyrjun undir stjórn Gísla Jónatanssonar. Ferðin hefst og endar í Reykjavík, en tekur fjóra daga, þrjár nætur í gistingu á Akureyri. Ekið er í rútu allan tímann (þó er farið á fjallabílum yfir í Fjörður). Fyrsta daginn er ekið frá Reykjavík til Akureyrar um Kjöl. Á öðrum degi er ekið norður Flateyjardalsheiði allt út á Flateyjardal. Á þriðja degi er haldið út í Fjörður (Hvalvatnsfjörð) um Leirdalsheiði á vel útbúnum fjallabílum. Á fjórða og síðasta degi er ekið aftur til Reykjavíkur en um Eyjafjörð að vestan, gegnum Dalvík og Ólafsfjörð, stoppað verður á Siglufirði en síðan ekið suður á ný um Þverárfjall og þjóðveg 1.

Leiðsögumaður: Gísli Jónatansson

Verð: Kemur síðar

Haustlitaferð í Borgarfjörð (september/október)

Tveggja daga huggulegheita ferð í Borgarfjörð, þar sem heimsóttir verða ýmsir áhugaverðir staðir og gist á góðu hóteli, með flottum mat og drykk. Í þessari ferð munum við kynnast sögu, menningu og náttúru héraðsins auk þess að dreypa á guðaveigum borgfirskra fyrirtækja. Gist verður á Hótel Húsafelli.

Leiðsögumaður: Kemur síðar

Verð: Kemur síðar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um ferðirnar má finna á vef FEB Innanlandsferðir – Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB)

Skip to content