Á íslensku má alltaf finna svar – Embla hjálpar

Embla, nýtt og spennandi app

Nú getum við talað við snjallsímann okkar á íslensku með aðstoð Emblu

Embla er nýtt og spennandi app fyrir iPhone og Android snjallsíma. Þú getur talað við Emblu á íslensku, spurt hana spurninga og hún svarar um hæl. Hún skilur ýmsar algengar spurningar og svarar þeim eftir bestu getu. Með tíð og tíma – og kannski með þinni aðstoð – mun hún læra að svara fleiri tegundum spurninga.
Embla getur spáð fyrir um veðrið, svalað forvitni þinni um fólk sem hefur verið í fréttum og frætt þig um fyrirtæki, stofnanir og fyrirbæri. Þar að auki kann Embla nokkra brandara, en deila má um hversu góðir þeir eru.
Embla svarar spurningum á borð við: Hvernig er veðrið í Borgarnesi? Hvar er næsta stoppistöð? Hvenær kemur strætó númer 14 á Hlemm? Hvar er ég? og Hvað er langt í Melabúðina? Hún getur líka sagt þér hvað klukkan er, reiknað einföld stærðfræðidæmi og breytt upphæðum á milli gjaldmiðla.
Hægt er að sækja Emblu fyrir iOS í Apple App Store og fyrir Android í Google Play Store.

Fyrirtækið Miðeind ehf hefur hannað Emblu, sem er í stöðugri þróun.Hún byggir á íslensku máltæknivélinni Greyni. Miðeind vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Tæknin gerir kleift að vinna með íslenskan texta og talmál í tölvum, símum og öðrum tækjum. Meðal annars má nota hana til að vinna upplýsingar upp úr texta, lesa yfir stafsetningu og málfar, þýða texta milli íslensku og annarra tungumála, svara spurningum, búa til samantektir o.m.fl. Hugbúnaður Miðeindar er opinn og nýtist almenningi, atvinnulífi og rannsakendum.

Á tímum snjallvæðingar hefur íslenskan átt undir högg að sækja og þegar þróun tækninnar í daglegu lífi okkar leiðir til þess að við getum talað við tækin okkar er hætta á því að tungumál sem fáir tala verði undir í samkeppninni og að við verðum að nota ensku til að tölvan, eða ryksugan, skilji okkur þegar við skipum fyrir. Máltækniáætlun stjórnvalda fyrir íslensku, 2018–2022, hefur það að markmiði að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu. Miðeind tekur þátt í þessari fimm ára máltækniáætlun stjórnvalda og er aðili að sjálfseignarstofnuninni Almannarómi.
Nokkur skjáskot af svörum Emblu sem eru skrifuð á skjáinn um leið og hún segir frá.

Sjá nánar á https://old.voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/embla/

 

Skip to content