Ekki bíða fram yfir fimmtugt með að skipuleggja fjármálin þín við starfslok

Nýlega stóð Íslandsbanki fyrir kynningafundi um fjármál við starfslok þar sem fram kom að sérfræðingar á sviði lífeyrismála ráðleggja fólki að leita sér ráðgjafar eigi síðar en um fimmtugt um hvernig best sé að haga töku lífeyris og vara við því að bíða með ákvarðanatöku fram að starfslokum.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar og fræðslu, segir lífeyrissjóðakerfið vera flókið og síbreytilegt og að reglur um greiðslur og réttindi sameignalífeyrissjóða séu mismunandi. Sem dæmi breytingar benti hann á að nú sé í undirbúning nýtt frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar sem, nái það fram að ganga, breyti enn og aftur reglum um ellilífeyrisréttindi. Það er því afar mikilvægt að kynna sér hvaða reglur eru gildi á hverjum tíma svo ekki séu teknar ákvarðanir á grunni úreltra reglna.

Björn segir að engin ein leið henti öllum heldur þurfi að skoða hvert tilvik fyrir sig svo draga megi úr tekjuskerðingum og viðbótar skattaálögum. Hann segir alltof algengt að fólk skilji ekki reglur lífeyrissjóðakerfisins og samspil tekna frá sameignarlífeyrissjóðum, Tryggingastofnunar ríkisins og fjármagnstekjur til hlítar og taki óafturkræfar ákvarðanir sem geti leitt hundruð þúsunda og jafnvel milljónir í viðbótarkostnað.

Hægt er að horfa á kynningu Björns á meðfylgjandi vefslóð: https://www.youtube.com/watch?v=LaKfvfGBnGY

Þá þarf sérstaklegar að skoða hvort hjón hafi mjög misgóð lífeyrisréttindi. Lífeyrisgreiðslur til eftirlifandi maka eru mismunandi milli lífeyrissjóða og halla þar yfirleitt á konur enn sem komið er. Sem dæmi má nefna að ef sá maki sem á meiri lífeyrisréttindi þarf innlögn inn á hjúkrunarheimili renna nánast allar tekjur viðkomandi, hvort sem um er að ræða fjármagnstekjur eða lífeyrisgreiðslur, til greiðslu fyrir dvölina. Það getur leitt til þess að aðilinn sem á síðri réttindi fái aldrei meira en rúmlega 90 þúsund krónur nettó um hver mánaðamót.

Það er hægt að komast hjá þessu með því að jafna ellilífeyrisréttindi á milli hjóna með gagnkvæmu samkomulagi. Ef vilji hjóna eða sambúðarfólks stendur til að jafna réttindin sín á milli er mikilvægt að draga það ekki þar sem fyrir þarf að liggja læknisvottorð um andlega og líkamlega heilsu.

Nánari upplýsingar um jöfnun lífeyrisréttinda er að finna á vef Sambands lífeyrissjóða https://www.lifeyrismal.is/is/spurt-og-svarad/skipting-ellilifeyrisrettinda.

Skip to content